top of page
05adalefst.jpg

Unbearable lightness of beeing a potato Óbærilegur léttleiki kartöfluútsæðis

Verk sem voru í vinnslu í tvö ár. Það hófst með því að ég keypti poka af kartöfluútsæði sem ég lét spíra og hugðist setja niður að vori. Ekki varð úr því og spírunin hélt áfram allt það árið og einnig það næsta. Þá var mér orðið ljóst að þær færu aldrei ofaní jörðina heldur yrðu þær notaðar í myndlistarverk. Útsæðinu var ekki ætlað að bera ávöxt í því formi sem ætlast er til heldur öðru og kannski æðra. Ég fór af stað með að ljósmynda allar 132 kartöflurnar. Þær voru ljósmyndaðar á svartri glerplötu með bakbirtu og þannig fengin spegilmynd þeirra auk þess sem fíngerð hár spíranna komu í ljós. Ég útfærði þetta verk fyrir sýningarrými í Skálholti, Biskupstungum þannig að kartöflurnar mynduðu einn svartan borða 30cm á hæð eftir öllum salnum í augnhæð. Þar voru þær til sýnis sumarmánuðina maí, júní, júlí og ágúst 2011. 

05 HOME ein.jpg
stök3.jpg
stök2.jpg

Tími minninganna eftir Dr. Hlyn Helgason

Rakel Steinarsdóttir vinnur með tímann í verkum sínum. Í ljósmyndaröð sem hún sýndi árið 2011 í Skálholti nýtti hún sér útsæðiskartöflur í þessu skyni; Kartöflur sem höfðu fengið að spíra í óralangan tíma og báru þannig skýr merki þess tíma sem hafði liðið í myrkri á meðan þær fengu að njóta náttúrlegs eðlis síns: Þær höfðu spírað og reynt að vekja sig til lífs, rætast og skjóta frjóöngum sínum upp úr myrkri moldarinnar. Það voru þessar myndir, kartaflan sem bar þess merki að hafa umbreyst í tíma sínum úr afmörkuðu hnýði yfir í kjarna sem skaut sprotum sínum frá sér, sem Rakel tók fyrir – ómerkilegar myndir ofspíraðra kartaflna, sóun verðmæta, skemmt grænmeti – og breytti í heillandi mynd um tíma sem liðið hafði á meðan enginn var til þess að taka eftir því sem var að gerast. Í myndverkinu raðar Rakel upp hverri kartöflu á speglandi glerflöt, einangraði þær þannig með svartan bakgrunn og tók af henni mynd. Sérhver kartafla var því dregin út, gerð einstök og verðmæt í formi sínu og lífrænni þróun. Hver kartafla varð einstaklingur og spírurnar urðu tákn fyrir þróunina, fyrir framsókn tímans og möguleika. Á sama tíma fylgdi verkinu tregi og óhugur í mynd móðurinnar sjálfrar, kartöflunnar sem gefið hafði líf sitt fyrir möguleikana sem spírurnar buðu upp á. Líf og dauði tókust því á í þessum myndum á áberandi hátt. Þannig birti Rakel í endurtekinni mynd kartaflanna hina eilífu spurningu tímans; það sem kemur, það sem er og það sem var; það sem á eftir að spretta og það sem á eftir að gefa eftir. (Öll greinin hér)

05adalefst.jpg
bottom of page