RAKEL STEINARSDÓTTIR
Navel of my universe Nafli alheims míns
Myndverk Rakelar eru tímatengd. Í verkunum hennar sem voru sýnd í Stúdíó Stafni má glöggt lesa tímann. Við undirbúning sýningarinnar var hún með mynd eftir Kristján Davíðsson í huga þar sem sterklega má skynja vatn og er verkið ljóðrænt eins og afstraksjón Kristjáns. Vatnið vísar svo í tímann eins og Steinn Steinarr bendir okkur á í ljóði sínu Tíminn og vatnið.
Og tíminn er eins og mynd,
sem máluð er af vatninu
og mér til hálfs.
Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
(Úr Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr)
Efniviðurinn í sýningunni eru föt af uppkomnum börnum Rakelar og ögn af hennar eigin klæðnaði sem hún hefur sett til hliðar. Sem oft áður notar hún hversdagslega hluti sem eru settir í nýtt samhengi. Samhengið fer eftir þeim sem á horfir þó Rakel máli hér myndir með minningum og tilfinningum sem upp koma í vinnsluferlinu, bæði ljúfar og sárar, þá geta þetta allt eins verið minningar einhvers annars. "Nafli alheims míns" er minn og þinn.
Sum fötin eru meira slitin en önnur, hafa verið uppáhalds eða þá lánuð til systradætra og komu svo aftur. Því eru þau slitnustu trúlega þau elskuðustu, þau sem hafa hlýjað mest.
Þessi föt hafa fylgt Rakel allan þennann tíma, nú hefur þeim verið komið í not og hljóta þannig flíkurnar margfalda lífdaga sem trúlega er ekki lokið enn. Sjálfbærni, nýtni og hringrás koma upp í hugann svona eins og sjálfsögð meðfædd nýtni konunnar. Nú er hún laus við þennan farangur og það gerir hún á fagurlega hátt. Rakel býður áhorfandanum upp á að fanga minningar á meðan tíminn rennur inn í vitundina.
Sigríður Melrós Ólafsdóttir