RAKEL STEINARSDÓTTIR

TouchedSnart hjarta
Verkefnið ársfjórðungar fór af stað 1. janúar 2009 í fjöru er afmarkast af fótboltavelli við Sörlaskjól og dælustöð við Faxaskjól. Á bakkanum fyrir ofan fjöruna safnast fyrir töluvert magn af rekavið. Þegar sjávarstaða og vindur er þannig, feykir aldan spýtum og steinum upp á land. Það sem upp hafði safnast í gegnum árin fjarlægði ég og hreinsaði þannig svæðið af öllu utanaðkomandi.
Upp frá því í eitt ár safnaði ég öllu því sem kom á land. Mjög misjafnt var hvort og hversu mikill reki kom uppá land og ýmislegt skemmtilegt kom í ljós. Ég safnaði, þvoði og þurrkaði rekann og hélt þriggja mánaða “birgðum” saman. Út frá þessu efni vann ég síðan sýningu.
Hugmyndir verkanna koma víða að og þau geta skírskotað til margra hluta. Oft vinn ég þannig að náttúran eða umhverfið gerir/gefur hluta af verkinu og ég útfæri það svo, stundum á undan og stundum á eftir.
Þegar ég týndi rekann var kreppan mikið í umræðunni og fannst mér því áhugavert að nýta mér auðlind sem var fleygt á land eftir dyntum veðurs og stöðu tungls. Í gegnum aldirnar hefur rekinn auðvitað verið nýttur til margra hluta eins og húsbygginga, húshitunar og girðinga. Skipting rekans í ársfjórðunga má tengja við fyrirtækjauppgjör sem oft eru gerð á þriggja mánaða fresti.
Í útfærslunni langar mig til að leyfa hverri og einni spýtu/einstaklingi að njóta sín. Í fyrsta fjórðungnum er rekanum raðað á gólfið í einskonar hring útfrá miðju. Í öðrum fjórðungnum raða þær (rekinn) sér upp í kringum þá stærstu. Í þriðja fjórðungnum eru þær saman tvær og tvær í pörum, með skrautlegu tyggjói á milli sín. Minna á vísa á klukku. Í þeim fjórða mynda þær tröppur á rauðu flaueli.