RAKEL STEINARSDÓTTIR
Handle with care Meðhöndlist af gætni
Eitt sumar brotnuði óvenju mörg glös á heimili mínu. Af einhverri ástæðu geymdi ég brotin og eins söguna hvaðan þau komu, hvernig þau brotnuðu og hver hafði ollið því. Í lok sumarsins var ég farin að sjá að brotin yrðu notuð í vekefni.
Eftir ýmsar vangaveltur notaði ég brotin sem skapalón í málverk. Ég raðaði brotunum á sandpappír, bláan eða gulan, spreyjaði yfir með svörtu spreyi og tók þau síðan af. Þannig mynduðu þau munstur eða svolítið eins og rannsakandi myndi raða uppgreftri sínum. Með hverri mynd fylgdi hlutlaus sagan með, hvaðan glasið kom, hvað hafði gerst og hvernær og hver olli því.
Texti með málverkunum
7. maí, 2009
Græna Alsace kristalsglasið sem ég keypti á fornsölu í Reykjavík fyrir um áratug brotnaði um leið og glært vatnsglas, það síðasta af lélegu en fallegu glösunum mínum með loftdropa í þykkum botni. Guðmundur, minn fyrrverandi, var að ná í vatnsglas upp í skáp og misreiknaði sig eitthvað því ein hillan var grynnri en hinar. Glasið féll niður á borð þar sem vínglasið stóð og saman skullu þau niður á gólf og brotnuðu. Núna á ég þrjú græn kristalsglös eftir, en var bara fegin að losna við þetta staka vatnsglas.
29. maí 2009.
Eitt af ódýru vínglösunum mínum brotnaði í partýi sem ég hélt með félögum mínum úr kennaranáminu í Listaháskólanum. Það er eðlilegt að einhver óhöpp verði í fjölmennu boði. Ég varð reyndar ekki vör við þegar það brotnaði. Einhver sópaði brotunum saman og setti í kassa við ruslafötuna. Daginn eftir fann ég nokkur brot í forstofunni svo þar hefur glasið eflaust brotnað. Í partýum er alltaf ágætt að hjálpast að.
13.júní 2009
Annað ódýrt vínglas brotnaði í öðru partýi heima. Það gerðist í eldhúsinu og glasið bara féll út af borðbrúninni hjá einhverjum sem ég tók ekki eftir hver var. Glasið lenti á flísalögðu gólfinu og þar sem það splundraðist auðvitað.
Júlí 2009.
Agnes dóttir mín varð mjög miður sín þegar gamla bjórglasið mitt brotnaði. Það tók hálfan lítra og var merkt brugghúsi í Arendal í Noregi, en því hafði ég laumað með mér út af veitingastað á þeim slóðum þegar ég var unglingur.
Dóttir mín var að teygja sig eftir djúsfernu í ísskápnum en á sama tíma hélt hún á glasinu. Líklega hefur hún tyllt því á ískápshilluna, en ekki vildi betur til en svo að glasið datt á gólfið. Glasið var tómt svo gólfið blotnaði ekkert. Mér var brugðið og fannst þetta fremur klaufalegt hjá henni. Hún sagðist vita að mér hefði þótt vænt um glasið, en ég sagði henni að mér þætti frábært að það hefði verið í notkun. Það væri lítið gagn af ónotuðu glasi uppi í skáp og því stæði mér alveg á sama þó glasið væri nú brotið. Það hefði skilað sínu.
21. ágúst 2009.
Biggi vinur minn sat í miðjum sófanum inni í stofu og var með glas á borðinu. Þessi sena var satt að segja svolítið fyndin því þetta var eins og að fylgjast með gamanmynd í slow-motion. Svarti leðurjakkinn hans lá í sófanum hægra megin við hann. Skyndilega ákvað Biggi að færa jakkann og leggja hann í staðinn vinstra megin við sig. Ég sat sallaróleg í stól á móti honum og var búin að sjá þetta fyrir. Jakkinn sópaði glasinu niður á gólf og það brotnaði.
Þetta var eitt af glösunum sem ég keypti í stórmarkaðnum haustið 2007, eftir að ég flutti inn í Sörlaskjólið. Glösin voru tiltölulega ódýr en ég var víða búin að skoða vatnsglös og hafði ekki fundið nein sem mig langaði verulega í. Þessi voru glær með dropaskreytingu allan hringinn, nokkuð skemmtileg.
5. september 2009.
Það var líf og fjör á dansstaðnum þar sem ég var ásamt kórfélögum mínum. Þegar ég brá mér á salernið frekar seint um kvöldið blasti við mér heldur ófögur sjón. Á gólfinu voru glerbrot um allt. Salernið við hliðina var upptekið svo ég horfði framhjá sóðaskapnum og notaði klósettið. Þá fékk ég löngun til að safna saman þessum brotum og taka þau með mér í safnið þó svo þetta væri ekki mitt glas og ekki á mínu heimili. Þessi brot voru öðruvísi en brotin mín, höfðu smallast í þúsund mola eins og hert gler gerir. Þetta hefur sennilega verið óbrjótandi glas sem þrátt fyrir það gat brotnað.
30. september 2009.
Foreldrar mínir áttu gullbrúðkaupsafmæli þennan dag. Við systurnar fjórar vorum búnar að þvælast með þeim um æskuheimilin þeirra í miðbænum og þá staði sem þau höfðu búið saman á. Við settumst dauðþreytt á Jómfrúna í Lækjargötu og fengum okkur léttan drykk og smurbrauð. Á meðan við biðum eftir brauðinu heyrði ég glas brotna og sperrti eyrun. Hljóðið kom frá eldhúsinu og mig langaði mest til að stökkva af stað og ná í glerbrotin. Það þorði ég hins vegar ekki og í huga mínum fóru af stað hugsanir um brotin, hvað hefði gerst og hvernig ég gæti náð í þau, en einnig að ég yrði bara að láta þetta vera. Mér fannst ég ekki geta ruðst inní eldhúsið og … Nei hingað og ekki lengra! Nú er ég búin að safna nógu miklu af brotum, í bili að minnsta kosti