top of page

Dr. Hlynur Helgason, Togetherness  -Sambandið, text in the programme for the exhibition at the SÍM Gallery, Reykjavík, Iceland 2012

​Tími minninganna

Rakel Steinarsdóttir vinnur með tímann í verkum sínum. Í ljósmyndaröð sem hún sýndi árið 2011 í Skálholti nýtti hún sér útsæðiskartöflur í þessu skyni; Kartöflur sem höfðu fengið að spíra í óralangan tíma og báru þannig skýr merki þess tíma sem hafði liðið í myrkri á meðan þær fengu að njóta náttúrlegs eðlis síns: Þær höfðu spírað og reynt að vekja sig til lífs, rætast og skjóta frjóöngum sínum upp úr myrkri moldarinnar. Það voru þessar myndir, kartaflan sem bar þess merki að hafa umbreyst í tíma sínum úr afmörkuðu hnýði yfir í kjarna sem skaut sprotum sínum frá sér, sem Rakel tók fyrir – ómerkilegar myndir ofspíraðra kartaflna, sóun verðmæta, skemmt grænmeti – og breytti í heillandi mynd um tíma sem liðið hafði á meðan enginn var til þess að taka eftir því sem var að gerast. Í myndverkinu raðar Rakel upp hverri kartöflu á speglandi glerflöt, einangraði þær þannig með svartan bakgrunn og tók af henni mynd. Sérhver kartafla var því dregin út, gerð einstök og verðmæt í formi sínu og lífrænni þróun. Hver kartafla varð einstaklingur og spírurnar urðu tákn fyrir þróunina, fyrir framsókn tímans og möguleika. Á sama tíma fylgdi verkinu tregi og óhugur í mynd móðurinnar sjálfrar, kartöflunnar sem gefið hafði líf sitt fyrir möguleikana sem spírurnar buðu upp á. Líf og dauði tókust því á í þessum myndum á áberandi hátt. Þannig birti Rakel í endurtekinni mynd kartaflanna hina eilífu spurningu tímans; það sem kemur, það sem er og það sem var; það sem á eftir að spretta og það sem á eftir að gefa eftir.

Samtíminn

Samtíminn er gjarnan orðaður við þá list sem við búum okkur á líðandi stund. Tíminn er þar orðinn lykilhugtak og lykilumfjöllunarefni listarinnar. Þetta lýsir sér í áherslunni á samtímann, það sem gerist samtímis, contemporary, það sem gerist með og í tímanum. Festa fyrri tíma og listar fyrri tíma hefur gefið eftir, hefðirnar og sjálf form listarinnar hafa vikið fyrir list sem er meðvituð um eigin hverfulleika og skammæja tilvist. Fyrr á tímum hugsuðu menn um tímann á annan hátt, hann var táknaður: hans var minnst í táknum og myndlíkingum innan um hin algildu og föstu form listarinnar. Myndhöggvarar hjuggu myndir sínar í stein sem þeir ætluðu að endast um aldur og ævi. Listmálarar unnu myndir sínar nostursamlega, lag ofaná lag, þannig að úr varð myndræn heild sem staðist gæti tímans tönn og birt myndir sínar komandi kynslóðum. Listin var leið til að festa og ákvarða ímyndir og hugmyndir og vernda þær fyrir ágangi tímans. Þannig var tíminn yfirbugaður í listinni á meðan tilvist mannanna sjálfra reyndist hvikul og hverful: Listaverkin voru máttarstólpar sem tíminn vann ekki á. Minningarnar voru hverfular en í listinn mátti fela minningarnar í táknrænum myndum sem síðan mátti hverfa aftur til hvenær sem er til að endurlifa það sem listin hafði til að bjóða.

Tækni nútímans til skrásetningar á tíma átti eftir að breyta þessu og listin hefur smátt og smátt orðið fyrir áhrifum þess. Fyrst var augnablikið skrásett, fest á glerplötu með ljósmyndatækni. Í stað nostursamlegrar staðfestingar á hugmyndum kom sjálfvirk teikning sem varðveitti ímyndina. Tíminn sjálfur var síðan skráður, annarsvegar með ritun hljóðs í línulegu formi á vaxhólka og plötur, hinsvegar í sjónritun á filmu sem streymt gat fyrir auga sýningarvélar. Þannig varð manninum loks mögulegt að skrásetja líðanina beint og endurtaka án þess að tákna hana á annan hátt. Áður fyrr leið tíminn og öll skráning minninga í texta eða mynd þarfnaðist endurtekinna kynna, lesturs eða skoðunar til að nást fram. Endurtekningin gat endurvakið minninguna, en það gerðist á táknrænan hátt og endurgerðan. Með sjálfvirkri skráningu á gangi þess sem leið – líðaninnar – var hægt að endurspila gang tímans á óbreyttan hátt aftur og aftur í raunverulegri mynd sinni. Þessir miðlar nútímans, sem skráðu augnablikið og líðanina, gerðu tímann í hverfulleika sínum smátt og smátt að auknu viðfangsefni listarinnar. Meitluð minningin í orði eða verki varð óraunveruleg í samanburði við skráningu sýnarinnar í ljósmyndinni og líðaninnar í kvikmyndinni.

Sambandið

Það er í þessu samhengi sem kyrrstæð verk Rakelar þurfa að skoðast. Í kartöfluverkinu nýtir hún sér skráningu ljósmyndarinnar til að birta á táknrænan hátt gang tímans. Kartöflurnar birta í reynd líðan sína í augnablikinu: Spírurnar eru greinilegt tákn fyrir tímann sem liðið hefur frá því þær voru einhverntímann lokaðar inni í hlýju og hóflega röku rými geymslunnar. Verkið sem við blasir á núverandi sýningu er einnig skráning á tíma; en nú er aðferðin og birtingarmyndin allt önnur.

Það sem blasir við áhorfandanum er fjöldi spjalda, hvítar ferningslaga krossviðsplötur, alls fjórtán að tölu þegar vel er að gáð. Plötunum er raðað skipulega upp á veggi rýmisins. Þegar komið er nær sést að hver einasta plata er skipulega götuð; búið er að bora reglulegt gatamynstur í hverja plötu eins og um stækkaða útgáfu af gataspjaldi væri að ræða. Í gegn um götin má sjá viðaráferðina að baki hvítu yfirboðinu og vegginn á bak við – götin hafa rofið yfirborðið á skipulegan máta. Við nánari skoðun og greiningu á því sem við blasir má sjá að gatamynstrið á hverri plötu samsvarar klukkustundum í degi hverjum, hver lóðrétt lína sem er lengst og órofin samanstendur af 24 götum. Lárétt er síðan mynsturfletinum skipt upp í mislangar línur, allt frá 29 upp í 31 gat á hverri plötu, allt eftir því hversu margir dagar voru í mánuðinum. Sá sem skoðar og les ekki textann sem fylgir gæti því með því að telja út einingar verksins greint að verið væri að tákna tíma í framgangi verksins. Þeim sem gefur sig ekki að því að skoða verkið á þann hátt blasir hins vegar við reglulegt og endurtekið mynstur götunar sem á vissum stöðum er rofið af stöðum þar sem reglunni er ekki fylgt, þar sem ekki allt er fyllt út og þar sem rof verða í gatamynstrinu. Einnig eru einstaka staðir þar sem götin eru minni. Þetta á sér ávallt stað á endum gataferla. Athugull áhorfandi væri ekki lengi að komast að því að hér væru táknuð minni tímabil en klukkustund, eitthvað í átt við hálftíma.

Minnsta skoðun leiðir því af sér hugmynd um reglulega endurtekningu, mynstur, formun á gatafleti. Meiri skoðun varpar þessari endurtekningu yfir á tímatáknun þar sem lóðréttar línur verða sólarhringar og láréttar línur birta tímaröð, dagaröð sem skiptist upp í mánuði. Með nánari skoðun má síðan greina lengri tíma, eitthvað sem tengja má við ár eða þvíumlíkt.

Nú er áhorfandinn búinn að skoða verkið, finna efniskenndina, rofið yfirborðið sem gatað hefur verið á valdsmannslegan og tæknilegan máta. Hann er búinn að meðtaka reglu mynstursins og skynja að reglan er rofin á mismunandi kerfisbundinn máta. Í þriðja lagi er hann búinn að komast að grunnkerfi verksins, annaðhvort með því að telja út kerfið eða lesa sér til um tímavísunina. Hann veit að að baki kerfinu er einhverskonar skráning á tíma, tíma sem oftast nær er samfelldur, órofinn með tilliti til þess að hver einasti möguleiki í gatakerfinu er fylltur út, en á öðrum tímum rofinn og slitróttur. Þegar skoðandinn er kominn á þetta stig, þá er komið að því næsta: Hver er merking verksins? Er einungis verið að gefa til kynna ótilgreindan tíma þar sem ítrekun tímabilanna er misregluleg? Eða er verkið skráning á öðru en sjálfu sér? Er verið að vísa í einhverja þætti eða eðli tímans sem stendur fyrir utan verkið?

Lyklar

Lyklar að verkum eru mismunandi. Sum eru óræð á meðan önnur liggja ljós fyrir. Í þessu verki liggur lykillinn í yfirskrift sýningarinnar og verksins: Sambandið. Verkið er skráning á sambandi. Það lýsir á kerfisbundinn hátt tíma sem á sér stað í sambandi. Hér eru möguleikarnir nokkrir: Um gæti verið að ræða tíma sem hefur átt sér stað í sambandi ef við teljum að verkið sé raunsætt. Einnig gæti verið um að ræða tíma sem mögulega gæti átt sér stað í sambandi, ef við teljum að verkið sé skáldað. Við vitum ekki hvort er, eins og stendur. Né heldur vitum við um eðli sambandsins. Er um að ræða viðskiptasamband eins og myndin í titli sýningarinnar gefa til kynna? Eða er myndin yfirvarp til að draga athyglina frá einhverju nærtækara?

Ef svo er, þá er freistandi að álykta að um væri að ræða persónulegt samband einstaklinga – persónugera verkið sem túlkun á samvistum einstaklinga – rómantísera verkið sem táknræna skráningu á einhverju nánara en viðskiptum. En um þetta vitum við ekki. Það er hins vegar þetta sem opnar verkið. Áhorfandinn kemur með eigin túlkun inn í þennan tímaramma sem verkið birtir okkur, hann býr til eigin frásögn um það hvað þessi reglulegi og endurtekni tími þýðir. Í þeirri frásögn verður sambandið órofið og sífellt á löngum tímabilum, en rofið og óreglulegra á öðrum. Í sömu sögu verður þó áberandi að sambandið er endurtekið og kemst ætíð á eftir að það rofnar – rofið verður aldrei endanlegt. Í upphafi er sambandið, í frásögn áhorfandans, einnig hvað stopulast – einstaka punktar með löngu millibili.

Það er þetta sem áhorfandinn fer með frá verkinu, yfirlit yfir tímabil sambands tveggja einstaklinga. Það er hins vegar áhugavert að uppgötva að upplýsingarnar sem verkið gefur eru takmarkaðar, verkið er að því leyti stafrænt. Annaðhvort er merki – gat – sem táknar tengingu í frásögn áhorfandans, eða það er ekki merki (nema þegar merkið er hálft). Það er því greinilegt að kerfi verksins gefur ekkert uppi um innihald sambandsins sem um er að ræða, heldur einungis upplýsingar um formið. Við vitum ekkert annað en hvort sambandið var á eða ekki; við höfum ekki aðgang að neinum upplýsingum um gæði sambandsins, þá ánægju sem af því hlaust eða þá nautn sem því gæti hafa fylgt. Að þessu leyti er verkið einnig opið. Við höfum aðgang að upplýsingum um taktinn í sambandinu, hversu mikið það var á hverjum tíma og hvenær það var minna. Við höfum ekki upplýsingar um innihaldið, hvorki um hvað gerðist þegar sambandið var í gangi né því sem átti sér stað eða orsakaði rofin.

Að lokum sitjum við uppi með myndverk, mynd sem er kerfisbundin og abstrakt skoðun á því sem verkið segist vera að fjalla um: Samband. Verkið sver sig í ætt við samtímalistina, það er áhugaverð skoðun á liðnum tíma; það fjallar á kerfisbundinn hátt um form og ytra byrði sambands, það birtir okkur tíma þar sem samband hefur átt sér stað, þar sem snerting er möguleg í gegnum götin á plötunum; það gefur okkur vísbendingu um að eitthvað hafi liðið, án þess að við vitum hvað þetta eitthvað var. Það eru því að sama skapi ótalmargar spurningar sem verkið vekur. Í kaldri og hrárri birtingu sinni á tíma krefst það þess af áhorfandanum að hann fylli út í eyðurnar, skáldi, búi sér til fabúleraðar myndir af því sem hefur átt sér stað á meðan tíminn hefur liðið. Verkið birtir okkur tímann í sinni hráustu mynd, en það reynir ekki að birta okkur þær minningar sem þessi tími hefur að geyma. Þennan tíma – tíma minninganna – fær áhorfandinn til útfyllingar og auðgunar. Verkið fjallar um tíma, það fjallar um óútfylltar minningar, um mögulegar tengingar, um líðan tímans í samtímaástandinu.

bottom of page